140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi stóð til að blanda saman tveimur ólíkum atkvæðagreiðslum þegar til stóð að kjósa um þetta með forsetakosningum þannig að sú afsökun hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra heldur ekki. Hæstv. ráðherra vildi það að minnsta kosti á þeim tíma.

Við nokkrir þingmenn, því miður allt of fáir, höfum reynt að eiga efnislegt samtal við fulltrúa stjórnarflokkanna um einstakar tillögur sem á að setja í atkvæðagreiðslu, um breytingartillögur. Við höfum ekki náð neinum árangri í að fá málefnalega og efnislega umræðu í þingsal um þær. Við höfum lagt fram breytingartillögur í þeirri von að fá þær ræddar, fá efnislega umfjöllun. Það hefur ekki orðið. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra kemur upp og lýsir því yfir að hann, og gefur þar með línuna fyrir ríkisstjórnarflokkana og stuðningsmenn þeirra hér á þingi, muni fella allar breytingartillögur. Það er engin ástæða til að halda áfram þeim tillögum sem ég hef lagt fram og við munum (Forseti hringir.) því draga til baka breytingartillögur okkar, við hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, til að taka ekki þátt í því að halda áfram með eitthvert mál sem fær enga umfjöllun á Alþingi.