140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Allt frá því að fyrsta ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur kom til valda 1. febrúar 2009 hefur staðið yfir samfellt sorgarferli í sambandi við breytingar á stjórnarskrá. Allt þetta ferli hefur meira og minna verið í skötulíki og það sem við stöndum frammi fyrir í dag er eingöngu ábót í þeim efnum.

Með því sem hér á að gera í dag er ekki verið að lagfæra þau mistök og hliðarspor sem stigin hafa verið á fyrri stigum í þessu máli. Það verður ekki um það að ræða að ferlið verði lagað með þessu. Þjóðaratkvæðagreiðsla í haust verður ekki um nýja stjórnarskrá. Hún verður ekki um endanlegar tillögur að nýrri stjórnarskrá heldur um skjal í miðju vinnsluferli. Það er augljóst og það kemur skýrt fram í texta tillögunnar sjálfrar.

Við sjálfstæðismenn lögðum fram nokkrar breytingartillögur við þetta mál meðan á málsmeðferðinni stóð, bæði í mars og reyndar bættist við ein í síðustu viku. Við ætlum að draga þessar tillögur til baka. Við teljum rétt (Forseti hringir.) að þeir þingmenn sem vilja bera ábyrgð á þessu máli beri ábyrgð á því frá upphafi til enda.