140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Mér finnst spennandi kostur að þjóðaratkvæðagreiðslur verði notaðar í meira mæli en verið hefur hingað til. Til þess að svo megi verða verður að hafa í huga helstu viðmið um samningu spurninga þegar unnið er að slíkum málum. Mikilvægast er að spurningar séu skýrar, að allir sem þeim ætla að svara skilji þær á sama hátt, að orðalagið sé ekki villandi eða óljóst og að það sé ljóst hvaða afleiðingar niðurstaðan hefur, þ.e. til hvers hún muni leiða.

Í þessu tilfelli er ekki svo og ég hef þungar áhyggjur af því að þessi fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðsla muni draga úr vilja landsmanna til að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég styð ekki þetta mál.

Mig langar jafnframt að benda á að tillögur stjórnlagaráðs liggja frammi. Þar er um að ræða 115 greinar. Hér er hins vegar verið að spyrja um sex atriði og það er ekki verið að spyrja um beinar tillögur (Forseti hringir.) sem eiga að verða að nýrri stjórnarskrá heldur einfaldlega einhver atriði sem meiri hlutinn telur mikilvægari en önnur.