140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég ber virðingu fyrir núverandi stjórnarskrá. Ég ber virðingu fyrir starfi stjórnlagaráðs og þeim hugmyndum sem koma frá því þó að öll sú saga sé hrakfallasaga. Ég ber virðingu fyrir kjósendum sem eiga að fá skýrar tillögur til að greiða atkvæði um. Ég ber virðingu fyrir heilbrigðri skynsemi og ég er hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum.

Sú tillaga sem við hér ræðum er hins vegar ómálefnaleg og mótsagnakennd, hér eru 115 greinar sem þjóðin á að greiða atkvæði um, eitt stykki stjórnarskrá, margt mjög gott, annað mjög slæmt og menn eiga að greiða atkvæði um allan pakkann í einu án þess að hv. stjórnarliðar hafi séð þörf fyrir eða haft áhuga á því að taka þátt í málefnalegri og efnislegri umræðu um þessar greinar. Umræðunni lauk ekki einu sinni efnislega um þetta frumvarp sem er gífurlega stórt og hver einasta grein hefur gífurleg áhrif á alla borgara þessa lands.