140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:28]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Stjórnmálasaga okkar undanfarna áratugi geymir fjölmörg dæmi um misheppnaðar tilraunir þingheims til að gera heildstæðar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Með þeirri vegferð sem hér hefur verið farin teljum við fullreynt að við vinnum breytingar á stjórnarskránni með gömlu aðferðunum. Það er eitt af því sem við þurfum helst að taka til okkar í þessum sal eftir hrun fjármálakerfisins, að gömlu aðferðirnar við mótun þjóðfélagsins duga ekki lengur.

Það er eðlileg krafa þjóðarinnar að fá að hafa beina aðkomu að mótun þessarar grundvallarlögbókar lýðveldisins. Þjóðin kaus 25 einstaklinga til að vinna þetta verk, núna fær hún að segja álit sitt á því frumvarpi sem kom frá stjórnlagaráði. (Gripið fram í: Það er Alþingi.) Það er fullkomlega eðlilegt, það er mikilvægt og þetta er sögulegt og tímabært skref í átt að því að endurreisa íslenska stjórnmálamenningu.