140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:37]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við munum ekki setja stjórnarskrá í dag. Það er langt ferli þegar þjóð setur sér stjórnarskrá og í þeirri stjórnarskrá sem við nú höfum eru reglur um það hvernig staðið skuli að því að setja stjórnarskrá. Ef við samþykkjum í dag þá tillögu sem liggur fyrir verður því vísað til þjóðarinnar hvort frumvarp um nýja stjórnarskrá eigi að koma fyrir þingið og fara þar í gegnum þrjár umræður. Á öllum þessum stundum gefst þjóðinni tækifæri til að tjá sig og koma skilaboðum til þingmanna. Þetta er langur prósess og út úr þessum fáum við vonandi fallega stjórnarskrá sem verður slípuð eins og demantur.