140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er afar slakur yfir þessu máli. Ég vil hins vegar að það komi skýrt fram að þessi atkvæðagreiðsla snýst um að leyfa þjóðinni að segja álit sitt á því hvort draga eigi til baka umsókn eða ekki. Þetta snýst ekki um það hvort þingmenn eða einhverjir vilji hætta núna viðræðum við Evrópusambandið. Þetta er spurning um að hinir lýðræðiselskandi þingmenn sem tala svo gjarnan í þessum stól leyfi þjóðinni að segja álit sitt, sömu þjóð og þeir vilja leyfa að tjá sig um stjórnarskrána. (Gripið fram í: Í miðju kafi.) Já, í miðju kafi, eins og sagt er úti í þingsal. Það er nákvæmlega sama staðan, kæru þingmenn og frú forseti, með stjórnarskrána og Evrópusambandsviðræðurnar. Þetta er allt í miðju kafi, þetta er allt óklárað. Eigum við þá ekki að spyrja þjóðina beggja þessara spurninga: Hvað vill þjóðin með stjórnarskrána og vill hún halda áfram viðræðum við Evrópusambandið?

Þið, kæru þingmenn, lýðræðiselskandi þingmenn, hljótið að leyfa þjóðinni að segja álit sitt á þessu. (Gripið fram í: Vaðlaheiðargöng.) Og jafnvel Vaðlaheiðargöngum. (Forseti hringir.) [Hlátur í þingsal.]

Ég segi að sjálfsögðu já.