140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:45]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þegar þingheimur ákvað að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið gleymdist eitt lítið smáatriði, það að spyrja þjóðina hvort hún hefði áhuga á því að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Nú gefst okkur tækifæri til að bæta fyrir þau mistök og spyrja þjóðina hvort hún vilji halda áfram þeirri vegferð sem hefur ekki verið algjörlega áfallalaus. Það er talað um að það sé komið inn í mitt samningaferli. Við eigum algjörlega eftir að semja um grundvallaratriði eins og sjávarútveg og landbúnað, atriði sem skipta þjóðina öllu máli. (Gripið fram í.) Ég vona svo sannarlega að þjóðin taki undir málflutning minn og segi nei.

Þess vegna ætla ég að segja já við þessari tillögu, frú forseti.