140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:48]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Sú afdrifaríka ákvörðun Alþingis að sækja um aðild að Evrópusambandinu var ekki gerð með samþykki þjóðarinnar. Þetta var ekki stærsta málið í alþingiskosningum árið 2009 heldur það að takast á við önnur brýnni verkefni. Að mínu mati (Utanrrh.: Þú …) kom þingið á vissan hátt aftan að (Gripið fram í.) þjóðinni í þessum efnum og þótt hæstv. utanríkisráðherra geti talað nokkuð sperrtur fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar gerir hann það ekki fyrir hönd þingflokks Vinstri grænna eða þeirra sem kusu þann flokk á sínum tíma. Það skal vera alveg ljóst.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur verið andvíg aðild að Evrópusambandinu. Fyrir síðustu kosningar talaði ég gegn því að send yrði umsókn. Ég tel að nú sé í gangi aðlögunarferli en ekki venjulegt umsóknarferli, enda hefur Evrópusambandið sjálft lagt áherslu á að þetta ferli snúist um aðlögun og hraða hennar fyrir aðlögun íslensks stjórnkerfis að Evrópusambandinu og regluverki þess. (Forseti hringir.)

Ég tel alveg einboðið að þjóðin fái að kjósa núna um þessa stöðu, alveg eins og við leggjum hér til að kosið verði um stjórnarskrána í miðju ferli.

Ég segi því svo sannarlega já, frú forseti, og tel að það sé frumburðarréttur þjóðarinnar að fá að koma þarna að. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)