140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég var ein af þeim sem greiddu atkvæði á móti því að við færum í aðildarviðræður. Ég var ein af þeim sem greiddu atkvæði með því að spyrja þjóðina sumarið 2009. Það var fellt, og það var samþykkt að fara í þessa vegferð. Ég er lýðræðissinni og ég gengst undir þá ákvörðun.

Mér finnst mjög eðlilegt að þjóðin fái þá að sjá efnislega hvað það þýðir fyrir okkur sem þjóð að ganga í Evrópusambandið. Menn voru með myndlíkingar hérna áðan og ég segi að það að hætta nú án þess að sjá efnislega hvað er á ferðinni sé eins og að stökkva út úr flugvél í fallhlíf og ætla að hætta við á miðri leið. Við hljótum alltaf einhvern tímann að lenda á jörðinni (Gripið fram í: Ha?) og við þurfum alltaf sem þjóð að gera það upp við okkur hvort við teljum að hagsmunum okkar sé betur borgið innan Evrópusambandsins eða utan. Því miður hafa margir sem eru andvígir inngöngu í Evrópusambandið dregið lappirnar í þessu máli svo það er ekki orðið efnislega skýrara (Forseti hringir.) en það er í dag hvað er í pakkanum. [Kliður í þingsal.]

Ég segi nei.