140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er kostulegt að heyra sama fólkið lýsa því hér yfir hvers lags lýðræðissinnar það sé vegna þess að það sé fylgjandi því að leyfa fólki að koma að stjórnarskrárferlinu, greiða atkvæði um tillögu sem er ekki enn vitað hvernig muni líta út, og koma svo hingað og segja að það sé algerlega ómögulegt að leyfa fólki að kjósa um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Hvernig er hægt að koma þessu heim og saman? Það er einfaldlega ekki hægt, enda liggur alveg ljóst fyrir hvað felst í Evrópusambandsaðild. Því er lýst í sáttmálum sambandsins. Hvað varðar breytingarnar á stjórnarskránni er hins vegar allt upp í loft.

Þetta snýst um að meiri hluti þingsins, að því er virðist, treystir almenningi ekki til að kjósa um mál nema geta ráðið því hver niðurstaðan verður eða hvernig úr henni verður unnið. Hér hafa nokkrir hv. þingmenn lýst því hvers vegna eigi ekki að hætta viðræðunum. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst bara um hvort almenningur eigi að fá að ákveða það eða ekki og að minnsta kosti hluti þingmanna treystir greinilega ekki almenningi til að taka þá ákvörðun. (Forseti hringir.)

En ég segi já.