140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég lít á mig sem fulltrúa þeirra kjósenda sem sjá fyrir sér bjartari framtíð Íslands innan stærsta friðarbandalags veraldar, Evrópusambandsins. Við ákváðum á Alþingi að fara í aðildarviðræður og skipuð var mjög góð og öflug samninganefnd sem er nú að semja um gríðarlega mikla hagsmuni fyrir Ísland til allrar framtíðar.

Ég sem ber mikla virðingu fyrir atkvæðisréttinum tel að kjósendur eigi að fá að taka þátt í atkvæðagreiðslu á grundvelli upplýsinga en ekki fordóma. Ég hafna því tillögu þeirra sem hræðast niðurstöður samninga við Evrópusambandið og vilja stöðva samningaviðræðurnar af og segi að sjálfsögðu nei, frú forseti, því að ég vil fá að kjósa um samning við Evrópusambandið í fyllingu tímans.