140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:15]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Menn sem ég tel skynsama hafa sagt mér að Evrópusambandið sé hræðilegt skrímsli sem ætli að leggja niður íslenskan landbúnað, leggja undir sig íslensk fiskimið, kalla íslenska æsku til herþjónustu og slátra henni á vígvöllum framtíðar. Aðrir segja mér að þetta sé bandalag sem hefur tryggt frið í Evrópu lengur en nokkurn tímann hefur ríkt þar áður, meiri viðskipti og almennt betri samfélagsgerð en áður.

Mig langar til að vita hvað er satt í þessu máli. Hverju á ég að trúa? Það er bara ein leið til þess (Gripið fram í.) og við erum á þeirri leið. Við erum komin langleiðina. Við skulum klára þetta, ekki vera með þann fíflagang að draga okkur út úr þessum viðræðum núna og rífast um þetta í aldarfjórðung. (GBS: Spyrja þjóðina.) Við skulum leyfa þjóðinni að ákveða. Valdið er hennar.

Ég segi nei við þessari heimskulegu tillögu.