140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:19]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Sú tillaga sem hér eru greidd atkvæði um er það sem við í daglegu tali köllum laumufarþega hér í þinginu. Hún fjallar um algerlega óskylt efni frá því dagskrárefni sem hér er til afgreiðslu. Þessi tillaga hefur nákvæmlega ekkert að gera með tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs. (Gripið fram í.) Hún er fyrst og fremst liður í því að afvegaleiða umræðuna um stjórnlögin, um frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá og um þá þjóðaratkvæðagreiðslu og vegferð sem við erum í.

Það er í takti við framgöngu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem hún hefur því miður forðast að taka þátt í vinnu nefndarinnar og (VigH: Ég hef alltaf …) þeim fundum sem nefndin átti meðal annars með stjórnlagaráði. (VigH: Ég hef alltaf mætt …) Þetta hefur margoft komið fram, frú forseti. (GBS: Þetta er ómálefnaleg …) [Háreysti í þingsal.] Ég tek ekki, (Forseti hringir.) ég skal endurtaka það sem ég sagði, (VigH: Þú skalt …) hv. þingmaður hefur (Forseti hringir.) hafnað því að taka þátt í meðal annars þeim fundum (Gripið fram í.) sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd átti með (Forseti hringir.) stjórnlagaráði. (Gripið fram í.) Þetta veit hv. þingmaður.

Ég tek ekki þátt í þessari (Forseti hringir.) sýndarmennsku hér og ég segi nei. [Kliður í þingsal.] (VigH: Afsökunarbeiðni.)