140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:21]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Ég vil segja tvennt um þá tillögu sem hér kemur til atkvæða. Í fyrsta lagi er mikilvægt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um grundvöll nýrrar stjórnarskrár. Að mínu áliti á hvorki að grafa undan þýðingu þeirrar atkvæðagreiðslu með því að blanda inn í hana óskyldum álitaefnum né með alvörulausum eða grínaktugum tillögum.

Í öðru lagi er það einlæg sannfæring mín að niðurstöðu í Evrópusambandsmálinu eigi þjóðin að ráða til lykta á grundvelli endanlegrar samningsniðurstöðu þar sem látið hefur verið reyna á öll hagsmunamál Íslands og þau vegin og metin. Þann lýðræðislega rétt á ekki og má ekki taka af þjóðinni. Verði það gert er það ávísun á margra ára þrætur um tengsl Íslands við ESB og málið yrði ekki útkljáð.

Ég get því ekki stutt þá breytingartillögu sem hér liggur fyrir og segi nei.