140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Þessi tillaga snýst um að leyfa þjóðinni að ráða því hvort aðildarviðræðum við Evrópusambandið verður haldið áfram, sömu þjóð og stjórnarmeirihlutinn ætlar að ráðfæra sig við um stjórnarskrána. Þjóðin fékk ekki að hafa síðasta orðið um það hvort sótt yrði um aðild. Það er kominn tími til að þjóðin fái að koma að þessu máli.

Það liggur alveg ljóst fyrir að ýmsir ráðherrar og þingmenn innan stjórnarliðsins hafa tjáð sig um þessi mál að undanförnu. Þar má til að mynda nefna hæstv. innanríkisráðherra, og hæstv. umhverfisráðherra sagði nýverið að þjóðin ætti að fá að koma að þessu máli á þessu kjörtímabili. Ég kalla eftir þessu við hv. formann utanríkismálanefndar og hæstv. ráðherra af því að rökin hafa verið þau að þetta séu óskyld mál. Við skulum þá koma málinu hingað í atkvæðagreiðslu svo hv. þingmenn stjórnarliðsins (Forseti hringir.) geti fengið tækifæri til að leyfa þjóðinni að koma að málinu en séu ekki með rök gegn því sem (Forseti hringir.) standast enga skoðun.

Ég segi já.