140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:31]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég hræðist ekki dóm þjóðarinnar um aðild að ESB, langt í frá, enda engin ástæða til. Það sem hér um ræðir er hins vegar gríðarlega viðamikið, fjárfrekt, orkufrekt og tímafrekt ferli aðlögunar og ekki bara aðildarviðræðna. Hér er talað eins og um einfaldan samning sé að ræða. Þetta er ferli sem tefur og takmarkar aðra mikilvæga og brýna valkosti sem við verðum að hafa orku og tíma í fyrir framtíð Íslands. Það er talað um að aldrei hafi þjóð sótt um aðild að ESB í jafngagnsæju, lýðræðislegu og opnu samráðsferli og í þessu ferli. Þá hlýtur þjóðin að eiga að fá að taka þátt í þessu opna, lýðræðislega samráðsferli. Það er sjálfsagt mál að hún fái þá sjálf að ákveða hvort hún vill, með allar þær upplýsingar sem fyrir liggja, (Forseti hringir.) halda áfram eða ekki. Ég spyr þegar fólk talar um hræðslu: Hvað er það sem þingheimur hræðist (Forseti hringir.) við að leita upplýsinga hjá þjóðinni um þetta mál og leyfa henni að taka ákvörðun um framhaldið? (Gripið fram í.)