140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:37]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í þessari tillögu birtist þrautseigja lýðræðissinna í merkilegu ferli sem hófst eftir hrun, ferli sem fólst í því að þjóðin fengi stjórnarskrá sem hún á ríkan þátt í að móta. Í götu þessa ferlis hafa verið lagðar ýmsar hindranir. Þar má nefna umræðu um þykkt pappa, stóryrt málþóf, hrokafullan fagáróður og margt fleira. En vonandi er seiglan að skila okkur þeim merka áfanga að þjóðin fái tækifæri til upplýstrar umræðu um stjórnarskrá sína, þá sem er í gildi, þá sem fulltrúar hennar komust að samkomulagi um að leggja til eftir ítarlegt samráð á fjölmennum þjóðfundi, í samtali fræðimanna í stjórnlaganefnd og í vinnu fulltrúanna í stjórnlagaráði. Í þeirri umræðu ætti líka að ræða um stjórnarskrá annarra ríkja og aðrar útfærslur. Eftir þá umræðu fær þjóðin tækifæri til að segja skoðun sína á tillögu stjórnlagaráðs og nokkrum lykilatriðum tengdum stjórnskipun landsins. Niðurstaðan verður þinginu síðan til ráðgjafar í vinnunni við gerð nýrrar stjórnarskrár sem fram fer næsta vetur. Hér er um að ræða (Forseti hringir.) lýðræðislegt ferli í samráði við þjóðina um grundvallarplagg íslenskrar stjórnskipunar. Þetta er merkilegur áfangi.

Til hamingju, Ísland. Auðvitað segi ég já.