140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Undanfarna áratugi hefur verið samstaða um að breytingar á stjórnarskrá skuli unnar í sátt, enda á stjórnarskrá að vera, eins og hæstv. efnahagsráðherra lýsti áðan, meðal dýrmætustu sameigna þjóðarinnar. Stjórnarskrá er nefnilega sameign þjóðarinnar og þess vegna mikilvægt að um hana ríki sátt.

Hins vegar hefur orðið algjör viðsnúningur hvað varðar þau vinnubrögð sem hafa tíðkast við breytingar á stjórnarskrá í tíð núverandi ríkisstjórnar. Núverandi ríkisstjórn telur ekki nauðsynlegt að víðtæk sátt ríki um breytingar á stjórnarskrá. Það hefur komið fram í máli ófárra stjórnarliða í umræðu um þetta mál. Hins vegar held ég að mikill meiri hluti almennings sé þeirrar skoðunar að um stjórnarskrána eigi að ríkja sátt en við komumst ekki að því og fáum ekki leiðsögn frá almenningi nema hann verði spurður um þetta mál. (Forseti hringir.) Því tel ég mikilvægt að þessari spurningu verði bætt við ef á að fara af stað með þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem hér er undir.