140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:53]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég kem hingað til að rifja einfaldlega upp hvað við höfum verið að gera. Hér var í upphafi farið af stað með þúsund manna þjóðfund sem valinn var með slembiúrtaki. Skoðanir slíks úrtaks gefa fullkomið þversnið af skoðun þjóðarinnar á máli. Sú niðurstaða fór til stjórnlaganefndar sem samhljóða allsherjarnefnd var sammála um að velja. Niðurstaða þeirrar nefndar var í tveimur skýrslum sem fóru til stjórnlagaþings sem var kjörið af 84 þús. Íslendingum (Gripið fram í: Nei, meiri hluta þingsins.) og nú er enn einu sinni verið að vísa niðurstöðum þess þings til þjóðarinnar. Það hefur aldrei nokkurn tíma verið haft meira samráð við íslenska þjóð og almenning í landinu en um þetta einstaka mál. Þess vegna er þessi tillaga algjörlega óþörf og með öllu óskiljanleg.