140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:56]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mun segja já við öllu því sem verða greidd atkvæði um á eftir þannig að ég mun ekki koma oftar upp svo það sé alveg ljóst. Vegna þeirrar umræðu sem hefur verið hér og þess að sumir þingmenn virðast ekki átta sig alveg á því hvernig stjórnarskrá er breytt vil ég lesa upp texta sem verður á kjörseðli í þjóðaratkvæðagreiðslunni:

„Stjórnarskrá er breytt þannig að frumvarp er lagt fram á Alþingi. Það er rætt við þrjár umræður og getur tekið breytingum í meðförum þingsins. Verði frumvarpið samþykkt skal rjúfa Alþingi og kjósa nýtt þing. Frumvarpið er þá lagt fram að nýju og samþykki Alþingi það óbreytt taka breytingarnar gildi að fenginni staðfestingu forseta.“

Sú tillaga sem hér er verið að greiða atkvæði um er um það hvort til grundvallar því frumvarpi sem lagt verður fram í haust verði lagðar þær tillögur (Forseti hringir.) sem stjórnlagaráð hefur samið og unnið mikið við. Það er það sem við erum að greiða atkvæði um.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vekur athygli á því að 2. mgr. hefur þegar verið breytt í atkvæðagreiðslu fyrr á fundinum.)