140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við þingmenn stöndum frammi fyrir því að hafa ekki fengið tækifæri til að segja álit okkar á einstökum greinum stjórnlagaráðs í efnislegri umfjöllun á Alþingi eða greiða um það atkvæði. Við munum ekki fá tækifæri til þess heldur í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu því að eingöngu eru bornar upp tvær spurningar. Það er allt eða ekkert.

Að mínu mati eru sumar af tillögum stjórnlagaráðs algjörlega galnar, illa unnar og ganga ekki upp. Sumt annað er hins vegar ágætt og ætti að taka inn í nýja stjórnarskrá. Um þetta þarf Alþingi að fá að fjalla en hefur ekki fengið. Ég tek undir með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, ef það verður sagt nei við þessari spurningu eru tillögur stjórnlagaráðs út af borðinu að mínu viti.

Annað sem við þurfum að hafa í huga, frú forseti, er að nánast frá upphafi hefur ekki ríkt nein sátt um þetta ferli, frá því að þjóðfundurinn skilaði af sér. Það er algjörlega á ábyrgð stjórnarmeirihlutans hvernig hann hefur haldið á þessu máli. Það er ekki hægt að styðja þessa tillögu vegna ferilsins, vegna þess hvernig haldið hefur verið á málinu og vegna þess að þetta sem á nú að gera hefur í rauninni ekkert að segja að mínu viti (Forseti hringir.) og þær aukaspurningar sem hér er bætt inn í varða áhugamál og gæluverkefni stjórnarmeirihlutans, því miður.