140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:07]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Stjórnarskrármálið er eitt mikilvægasta málið sem Alþingi hefur tekið sér fyrir hendur, ekki bara á þessu kjörtímabili heldur í þingsögunni. Þetta er nauðsynlegur liður í endurreisn samfélagsins eftir hrun. Við sjáum það líka, því miður, á þeim breytingartillögum sem fluttar hafa verið í dag og fallið hefur verið frá og greidd hafa verið atkvæði um að menn hafa sýnt þessu verkefni mismikla virðingu og dregið inn í það pólitíska stundarhagsmuni. Það er miður.

Við erum núna að hefja vegferð til heilla fyrir land og þjóð. Við ætlum að leggja lokahönd á nýja stjórnarskrá í samráði við íslenska þjóð. Við spyrjum hana ráða áður en lokahnykkurinn er tekinn og leggjum svo endanlega niðurstöðu í þjóðaratkvæði á ný (Gripið fram í: Nú?) eins og gildandi lög og stjórnarskrá gera ráð fyrir.

Þetta er stór stund, þetta er hamingjustund, það er með mikilli gleði sem ég segi já og ég tel líka að mikinn heiður eigi skilið (Forseti hringir.) hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir (Forseti hringir.) verkstjórn sína í þessu máli. Ég óska henni til hamingju. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)