140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í þessari spurningu er spurt hvort fólk vilji leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Í því orðalagi endurspeglast að hér er ekki um endanlegar tillögur að ræða og hættan er sú að menn muni þegar niðurstaða kemur úr þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem spurt er spurningar af þessu tagi, eyða ansi mikilli orku í að velta fyrir sér hvað liggi nákvæmlega til grundvallar. Þegar spurt er í þjóðaratkvæðagreiðslu er heppilegra að valkostirnir séu skýrir og endanlegir en orðalag eins og „að leggja til grundvallar“ er of óljóst. Það getur falið í sér allt frá því að aðeins sé um lítils háttar breytingar að ræða yfir í breytingar (Forseti hringir.) sem geta orðið töluvert miklar. Þess vegna segi ég nei.