140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég fór yfir í mörgum ræðum mínum við þessa umræðu eru þær spurningar sem verið er að samþykkja í dag nú þegar orðnar úreltar, sérstaklega spurning eitt sem gengur út á það hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að liggja til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Nú þegar hafa verið fengnir sex eða sjö lögfræðingar til að yfirfara þær tillögur og skrifa nýja greinargerð. Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kallar þetta lagatæknilegan yfirlestur en af viðtölum við sérfræðinga í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er alveg augljóst að umbylta þarf plagginu sem kom frá stjórnlagaráði. Þess vegna er einkennilegt að farið skuli vera af stað með þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. Plaggið er á engan hátt endanlegt. Það er brot á stjórnarskrá að fara með þetta fram með þessum hætti, ekki heimilt samkvæmt núgildandi stjórnarskrá (Forseti hringir.) og það að þjóðin sé kölluð til inn í þetta mál í haust er einungis til að draga úr kosningaþátttöku. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin situr áfram uppi með þetta 1 þús. millj. kr. mál.