140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Við hefðum átt að geta náð sátt um að nýta það besta úr tillögum stjórnlagaráðs. Með þeirri nálgun sem hér er lögð til er í rauninni verið að skemma fyrir málinu. Það er ætlast til þess af fólki að það annaðhvort fallist á allt eða ekkert og enn er óljóst hvar þetta allt á að vera. Þrátt fyrir fjölmargar hástemmdar yfirlýsingar um lýðræðisást frá þingmönnum stjórnarliðsins í dag veit þorri þingmanna að þetta upplegg er ekki til þess fallið að hjálpa málinu áfram. Þingmenn vita að það skemmir fyrir málinu eins og kom í ljós þegar greidd voru atkvæði um sams konar tillögu áður, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur bent á. Þá höfnuðu 42 þingmenn því að fara þessa leið og sex samþykktu það. Það sem gerðist í millitíðinni var að ríkisstjórnin fór að efast um meiri hluta sinn og það sem við greiðum atkvæði um hér er því afleiðing af pólitískum hrossakaupum en hefur ósköp lítið með raunverulegan vilja að gera.