140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er vandi við þessa spurningu að þau hugtök sem liggja til grundvallar orðalaginu þarna eru ekki skýr. Þá á ég við að menn skilja þau með töluvert mismunandi hætti. Spurningin hefði til dæmis getað verið nokkuð skýrari ef farin hefði verið sú leið sem hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi í umræðunni, að þarna væri talað berum orðum um ríkiseign með sérstökum skilmálum eða eitthvað slíkt. Það hefði verið skýrara að því leyti. Það hefði líka verið ívið skýrara ef í þessari spurningu og raunar fleiri spurningum sem hér fylgja á eftir hefði verið spurt hvort fólk væri samþykkt þeirri tillögu sem stjórnlagaráð lagði upp með.

Ef fólk greiðir atkvæði um þessa spurningu, er það þá að greiða atkvæði um útfærslu stjórnlagaráðs á málinu? Nei, ég hygg ekki. Ef svo hefði verið hefði væntanlega verið vísað (Forseti hringir.) til þess í þessari spurningu þannig að það er bara verið að spyrja svona almennt og opið og það býður heim hættunni (Forseti hringir.) á því að menn muni túlka hlutina með mismunandi hætti hver sem niðurstaðan verður í þessari atkvæðagreiðslu.