140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég stend upp til að benda á að það getur beinlínis verið andlýðræðislegt að fara fram með spurningu þar sem menn geta togað og teygt niðurstöðuna til að styrkja sinn málstað eftir á. Það á við í þeirri spurningu sem hér er undir. Er átt við þjóðareign eins og stjórnlaganefndin skilgreindi hana í sinni tillögu eða er átt við þjóðareign í anda þess sem stjórnlagaráðið fjallaði um? Þar var síðan áfram farið út í að fullt verð þyrfti að koma fyrir sem minnti aftur á grein úr sovésku stjórnarskránni þar sem enginn mátti fara með einkaeignarhald á neinum auðlindum í Sovétríkjunum. Það mátti einungis nýta allar auðlindir í þágu þjóðarinnar allrar og enginn mátti hafa fjárhagslegan ávinning af nýtingu þeirra. Menn vita hvernig það fyrirkomulag gekk sem Sovétríkin komu sér upp í þessum efnum, allt bundið í stjórnarskrá, ofsalega lýðræðislegt og í þágu heildarinnar. (Forseti hringir.) Þetta er beinlínis hættuleg spurning vegna þess að það er alveg augljóst að það á eftir að tæma öll efnisleg atriði hennar, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, alveg óháð því hvort þjóðin verður spurð í millitíðinni.

Ég gæti til dæmis (Forseti hringir.) séð fyrir mér undir ákveðnum formerkjum að styðja greinina, (Forseti hringir.) enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt fram slíka tillögu hér á þingi.