140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það sem ég tel að geti gerst við umræðu um þennan lið þjóðaratkvæðagreiðslunnar er að fólk telji að hér sé verið að greiða atkvæði um aðskilnað ríkis og kirkju. Það er allt annað mál. Það hefur líka komið fram fyrr í umræðunum að mér finnst óljóst hvort til stendur að taka ákvæðið um þjóðkirkjuna úr stjórnarskránni og segja um leið að það sé ekki verið að gera breytingar á kirkjuskipaninni. Ég tel að það jaðri við stjórnarskrársniðgöngu að halda ekki sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um slíka breytingu sem í þessu ákvæði felst. Við höfum ekki tæmt þá umræðu á þinginu.

Sumir halda því fram að það sé hægt að gera þessa breytingu án sérstakrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Aðrir halda því fram að það sé ekki hægt. Þetta geta menn lesið í greinargerð stjórnlagaráðs eins og henni var skilað hingað til þingsins. Ég tel (Forseti hringir.) rangt að vera með þessa spurningu, að hún geti valdið misskilningi og við höfum alls ekki tæmt efnið til að fá einhverja skynsamlega niðurstöðu úr þjóðaratkvæðagreiðslunni.