140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:51]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um hvort spyrja eigi hvort í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt. Hvað þýðir þetta? Ég veit ekki betur en að allir hafi jafnt kjörgengi og geti kosið til Alþingis þannig að þetta er furðuleg setning, en speglar kannski ákveðinn anda sem hefur verið á ferðinni í kringum tillögur stjórnlagaráðs, það er að vita hvernig draga megi úr vægi eða styrk aðkomu landsbyggðarinnar að stjórnsýslunni. Það er það sem þetta speglar fyrst og fremst. Ég hefði talið að þetta væri ekki brýnasta málið. Enn þá er 5% þröskuldur á fjölda kjósenda til að mega fá kjörna menn á þing. Það þýðir að liðlega 10 þús. kjósendur fá ekki fulltrúa á þing samkvæmt núgildandi lögum.

Ég hef því lagt áherslu á það í fyrri tillögum sem ég kynnti hér að frekar væri (Forseti hringir.) undir og stuðlað að jafnrétti landsmanna óháð búsetu í aðkomu að stjórnsýslu landsins (Forseti hringir.) en að slá þann tón sem sleginn er í þessari tillögu, frú forseti, og ég greiði henni ekki atkvæði.