140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í nefndaráliti sem við hv. þm. Ólöf Nordal gáfum út fyrir 2. umr. kemur fram að að okkar mati sé þessi spurning sennilega sú skýrasta af þeim sem fram koma í tillögu meiri hlutans. Hún er skást að því leyti að hún gefur mesta vísbendingu um hvort niðurstaðan verður já eða nei. Engu að síður hefur þessi tillaga sama galla og aðrar tillögur sem hér um ræðir, það er ekki vitað hvort vísað er með beinum hætti til tillagna stjórnlagaráðs eða einhvers annars. Það er ekki vitað hvort um er að ræða skýra kröfu um það til dæmis að landið verði eitt kjördæmi eins og margir í þinginu vilja en aðrir eru mjög andvígir. Ég mun greiða atkvæði gegn þessu þó að ég taki fram að hvað skýrleika varðar er þetta sennilega skásta spurningin.