140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:59]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sú spurning sem hér er verið að leggja fram er ein þeirra spurninga sem þarf að svara þegar við veltum fyrir okkur kosningafyrirkomulaginu, en bara ein þeirra. Það sem er auðvitað fráleitt í þessu máli er að stilla bara upp þessari einu spurningu sem lýtur að þeim grundvallarmálum sem snúa að kosningafyrirkomulaginu.

Aðrar þjóðir sem eru að velta þessum hlutum fyrir sér spyrja líka spurninga eins og þessara: Hvernig getum við tryggt sem best milliliðalaust samband þingmanns og kjósenda? Hvernig getum við stuðlað að því að það verði auðveldara að mynda meirihlutaríkisstjórnir?

Það koma auðvitað líka upp spurningar sem lúta að jafnrétti fólks, óháð búsetu. Þess vegna hefði verið eðlilegt að spyrja allra þessara spurninga um kosningafyrirkomulagið, ekki bara velja út þá einu spurningu sem hér er um að ræða. Þess vegna hljótum við að hafna því að þessi spurning verði lögð fyrir þjóðina eins og hér er lagt til og er algjörlega á ská og skjön við það sem gerist í allri annarri umræðu um þessi mál þar sem hún fer fram. (Forseti hringir.) Hér á landi er sjónarhóllinn allt of lágur og þess vegna er fráleitt að leggja fram þessa einu afmörkuðu spurningu eins og hér er lagt til.