140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Í upphafi þessarar atkvæðagreiðslu lýsti ég því yfir að ég væri talsmaður þess að hér væri farið í þjóðaratkvæðagreiðslur, jafnvel ráðgefandi ef spurningarnar væru skýrar. Því hef ég setið hjá við allar þær spurningar sem hér hafa verið bornar upp nema þá fyrstu er varðaði það hvort stjórnlagaráðstillögurnar ættu að liggja til grundvallar. Ég tel að þingið hafi átt að leggja meiri vinnu í fleiri tillögur. Ég skil ekki af hverju hér eru ekki spurningar um valdsvið forseta, fullveldisafsal og slíka hluti. Ég skil það ekki, ég skil ekki að hér sé búið að velja út örfáar spurningar sem eru óskiljanlegar eða illskiljanlegar. (Gripið fram í.) Ef spurningin er varðar jöfnun atkvæða á að vera skil ég ekki af hverju ekki fylgja þá fleiri jafnræðissjónarmið um búsetu og jafnan rétt fólks í landinu ef tilgangurinn er að varpa einhverju ljósi á einhvern þátt.

Þess vegna hef ég ákveðið að sitja hjá við allar þessar spurningar. (Forseti hringir.) Meiri hlutinn ber ábyrgðina á þeirri þvælu sem við erum að fara fram með.