140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta hef ég talið skýrustu spurninguna af þeim sem hér eru. Það þarf að vísu ekki mikið til vegna þess að hinar eru svo óskýrar að það væri eiginlega ekki hægt að toppa það þótt menn reyndu. En mér finnst atkvæðaskýringarnar sýna hvernig hefði verið hægt að gera þetta vel. Hér stendur mjög skýrt að menn eigi að greiða atkvæði um hvort þetta eigi að vega jafnt, ekki jafnara heldur jafnt, og þá eru nokkrar leiðir sem ég býst við að fólk sé ekki alveg sammála um. Ein er landið eitt kjördæmi sem ég tel afskaplega vonda hugmynd þó að ég vilji jafna vægi atkvæða. Önnur leið er einmenningskjördæmi og það eru kjördæmi sem við þyrftum að breyta mjög reglulega.

Virðulegi forseti. Hefði ekki verið gott ef við hefðum tekið þessa umræðu og klárað þá vinnu þannig að þetta hefði getað orðið skýr spurning sem hefði getað nýst? Þá gildir einu hvort við hefðum lagt til að hafa það í kosningalögunum eða í stjórnarskránni sem er reyndar svolítið róttækt og gerir það að verkum að það er erfitt að breyta því.