140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er enn eitt dæmið um óskýra spurningu. Er sá sem segir já við þessari spurningu að segja já við því að það sé nóg að 1% þjóðarinnar fari fram á þjóðaratkvæðagreiðslu eða eru það 5%? Eru það 50%? Það er alveg grundvallarmunur á þessu. Ef menn hefðu unnið þetta eins og á að vinna þingmál og ef menn hefðu borið virðingu fyrir því verkefni að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu hefði verið hægt að ljúka þessu máli almennilega.

Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson og fleiri lýstu síðan öðrum þáttum málsins sem við þyrftum svo sannarlega að ræða áður en við legðum þetta fram sem skoðanakönnun fyrir þjóðina. Það var ekki gert. Þetta er enn eitt dæmið um óljósa spurningu (Forseti hringir.) sem allir munu geta túlkað eins og þeir vilja og það er ekki hægt að gera annað en segja nei.