140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þessi spurning á sér ákveðna forsögu vegna þess að í upphaflegri tillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar voru gefnir valkostir með prósentum og ég veit það auðvitað og fylgdist með því í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að meiri hlutinn taldi sig verða að hverfa frá því fyrirkomulagi vegna ráðlegginga um að fyrirkomulagið væri of leiðandi. Niðurstaðan er hins vegar sú að það verður auðvelt að fá já við þessari spurningu. Ég held að mjög mikill og yfirgnæfandi hluti þjóðarinnar og ábyggilega yfirgnæfandi hluti í þinginu sé þeirrar skoðunar að það sé æskilegt að eitthvert tiltekið hlutfall þjóðarinnar geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að það sé ekki mikill ágreiningur um það. Það verður auðvelt að fá já sem svar við þessari spurningu en það segir okkur ekki neitt um það hvert hlutfallið á að vera eða hver útfærslan á síðan að vera að öðru leyti.