140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:15]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er stjórnarskrá í gildi hér í landinu og í henni er fjallað um með hvaða hætti megi breyta stjórnarskrá. Hér er gert ráð fyrir því að á kjörseðlinum komi texti til útskýringar á því hvernig stjórnarskrá sé breytt. Hins vegar kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans við þetta mál að það sé skoðun nefndarinnar að aflokinni síðari samþykkt þess samkvæmt 79. gr. stjórnarskrárinnar eigi að bera það undir þjóðina til endanlegrar staðfestingar og gildistöku í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég átta mig ekki á samhenginu. Það er gildandi stjórnarskrá í landinu. Þar er fjallað um með hvaða hætti eigi að breyta stjórnarskrá. Engu að síður er meiri hlutinn að tiltaka hér einhverjar aðrar reglur. Hvort á það að vera? Þessi viðbót frá meiri hlutanum inn í þessa útskýringu á kjörseðlinum kemur ekki fram. Mun slík þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram eða ekki? Er stefnt að því að fara gegn gildandi stjórnarskrá? (Gripið fram í.)