140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í fyrri liðnum sem við ræðum segir að það komi skýrt fram á kjörseðli að kjósandi geti sleppt því að svara einstökum spurningum — sem betur fer. Það er svo mikil rökleysa í þessu. Allar spurningarnar fyrir utan þá fyrstu eru innifaldar í þeirri fyrstu. Rökvísir kjósendur munu segja: Ég get ekki greitt atkvæði um númer 2–3 eða 6 nema sleppa þeirri fyrstu. Þetta allt saman er rökleysa.

Síðan er spurningin um kosningarnar sjálfar sem getið er í síðustu málsgreininni og núverandi stjórnarskrá. Samkvæmt þessu ferli sem við erum að fara í mun þjóðin aldrei greiða atkvæði um stjórnarskrána sína vegna þess að þegar stjórnarskrá hefur verið samþykkt á Alþingi ber að rjúfa þing og fara í almennar kosningar. Þjóðin mun aldrei greiða atkvæði um stjórnarskrána sérstaklega. Er þetta það sem lýðræðissinnarnir vilja, eða hvað?