140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:22]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum þessarar miklu umræðu og atkvæðagreiðslu þakka þingheimi fyrir að hafa klárað þetta mikilsverða mál. Þetta er eitt skrefið enn í því að við komum á nýrri stjórnarskrá sem hefur í rauninni staðið til að endurskoða síðan hún var sett 1944. Öll berum við mikla virðingu fyrir henni og ég á von á því að við munum bera virðingu fyrir því starfi sem við hefjum hér næsta haust þegar við tökum frumvarp til nýrrar stjórnarskipunar til efnislegrar umræðu á þinginu.

Ég ætla að vona að þá verði minna um útúrsnúninga en hefur verið í þessari umræðu. Bara til að það sé ljóst sem ég sagði við upphaf þessarar umræðu voru sérfræðingar með okkur í að semja þessar spurningar. Auðvitað berum við í meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ábyrgð á þeim (Forseti hringir.) og við ákveðum efnið en við höfðum sérfræðinga með. (Gripið fram í.) Orð manna hér í dag hafa minnt mig á það að þegar abstrakt málverk komu fyrst fram þóttust allir geta (Forseti hringir.) málað svona verk og betur en allir hinir. Það er þannig sem umræðan um verk sérfræðinga sem hafa hjálpað okkur hefur verið hér hjá hv. þingmönnum sem ættu að líta í eigin barm þegar þeir tala um vond vinnubrögð. [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í: … sérfræðinga.)