140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:24]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég hef tekið eftir því að nær enginn stjórnarliði hefur stigið upp í dag og sagt: Tillögur stjórnlagaráðs eru það sem við þurfum. Enginn ætlar að mæla með þeim í atkvæðagreiðslunni sem fer fram. [Kliður í þingsal.] Ég hef heyrt í almennri umræðu um málið að þingmenn stjórnarliðsins telji að það sé óæskilegt að þeir hafi skoðun á því. Hv. þm. Lúðvík Geirsson hefur lýst því sjónarmiði.

Ég tel það mikið óheillaskref að þingið taki mál órædd, án efnislegrar skoðunar, sendi þau út til þjóðaratkvæðagreiðslu og stígi svo til baka og segi: Við ætlum ekki að taka afstöðu til málsins, málið er úr okkar höndum. Það er beinlínis hlutverk þingsins að taka málið og vinna það til enda. Það hefði átt að gera áður en leitað var til þjóðarinnar. Við höfum allt sem þarf til að hefja þá vinnu. Menn þekkja skýrslurnar sem hafa verið unnar. Við þekkjum niðurstöðu þjóðfundarins, skýrslu stjórnlaganefndar og frumvarp stjórnlagaráðs sem meiri hlutinn kaus fyrir sitt leyti. Takið eftir því, það sem á að kjósa um er niðurstaða nefndar sem meiri hluti (Forseti hringir.) þingsins kaus. Hann hefur ekki kjark og þor til að leggja þá vinnu fram sem frumvarp á þinginu, (Forseti hringir.) hann er að sækja sér réttlætingu fyrir að gera það. Enda heyrum við hvernig formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar talar hér, (Forseti hringir.) það er búið að afgreiða frumvarpið, það kemur fram á haustþingi, það er þegar búið að ákveða það. Enda eru sérfræðingar að vinna við að taka tillögurnar (Forseti hringir.) til endurskoðunar.