140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:29]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Að vissu leyti ber að fagna því að nú er kominn lokapunktur í þetta hörmungarferli sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur farið af stað með, ólöglega kjörið stjórnlagaþing, stjórnlagaráð kosið af Alþingi en ekki þjóðinni og svo mætti lengi telja.

Þetta ferli hefur nú þegar kostað um 1 þús. milljónir. Nú skal bætt við og fara með þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu upp á 250–300 milljónir þannig að kostnaðurinn er gríðarlegur. Ríkisstjórnin hefur kunnað að eyða skattfé landsmanna í gæluverkefni. Þetta er ekki nýjasta dæmið um það.

Ég ætla að lýsa því hér yfir, virðulegi forseti, að ég hlakka mjög til nýs þings þegar þessi þjóðaratkvæðagreiðsla verður liðin hjá, þá verður komið að þeim tímapunkti sem stjórnarskipunarrétturinn segir til um að við þingmenn fáum málið í hendurnar og förum að gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni. Það er það sem við framsóknarmenn viljum og það er loksins, (Forseti hringir.) eftir þrjú ár af þessu þingi, sem við fáum að taka til okkar það mál (Forseti hringir.) sem við eigum einir að breyta. [Kliður í þingsal.]