140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég styð ekki þetta mál, ég tel að það sé ekki nægilega ígrundað og vel undirbúið. Ég vek athygli á því að upphaflegri tillögu frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur verið umbylt eftir að menn voru fengnir til að lesa hana yfir. Vegna þess að hv. formaður nefndarinnar, Valgerður Bjarnadóttir, dró það í efa að við sem erum að gagnrýna uppbyggingu spurninganna vitum nokkurn skapaðan hlut um þetta vil ég benda hv. þingmanni á að til þess að við getum tekið ákvarðanir hér ber okkur að beita gagnrýninni hugsun. Ég hef sjálf lesið ýmislegt í þessum fræðum og bendi hv. þingmanni á að lesa til dæmis kafla úr Handbók í aðferðafræði og rannsóknum í heilbrigðisvísindum. Þar er í 18. kafla grein eftir Þorlák Karlsson sem heitir „Spurningakannanir: uppbygging, orðalag og hættur“ þar sem allar þær meginreglur sem ég hef byggt málflutning minn á í þessu máli koma fram. (MÁ: Byrja aftur.)

Það er algjörlega ljóst og það er þinginu ekki til sóma að við gerum svo lítið úr þeim ummælum og þeim skoðunum sem við höfum að við köstum þeim öllum frá okkur sem einhverri vitleysu.