140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

orð þingmanna í atkvæðagreiðslu.

[14:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (ber af sér sakir):

Virðulegi forseti. Sá atburður varð hér fyrr í umræðunni í morgun að hv. þm Álfheiður Ingadóttir fékk að ljúga upp á mig sökum í annað sinn óáreitt úr þessum þingstóli. Ég hef fengið útprentun af ræðu hv. þingmanns. Þetta sagði hún, með leyfi forseta:

„Það er í takti við framgöngu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem hún hefur því miður forðast að taka þátt í vinnu nefndarinnar …“ — Svo er gripið fram í og svo kemur: „… þeim fundum sem nefndin átti meðal annars með stjórnlagaráði.“

Virðulegi forseti. Ef þingmaður getur borið annan þingmann þessum sökum, sér í lagi þar sem ég er líklega með rúmlega 90% mætingu á fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, er eitthvað að, annaðhvort hjá þingmanninum eða við stjórn þingsins. Þetta er óásættanlegt, sérstaklega í ljósi þess að sá þingmaður sem hér stendur hefur beitt sér af fullu afli til að reyna að breyta þessu máli til batnaðar (Forseti hringir.) eftir að það kom inn í þingið en það hentar ekki ríkisstjórnarflokkunum að fólk hafi skoðanir og beiti sér á móti þeim.