140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

orð þingmanna í atkvæðagreiðslu.

[14:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (ber af sér sakir):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þm. Baldur Þórhallsson nefnir réttilega að það eigi að ræða um málefnin og það sem menn segja en ekki fara í manninn hvet ég hv. þingmann til að skoða nákvæmlega hvað ég sagði. Ég vitnaði beint í orð sem ég hef fengið útprentuð hjá hv. þm. Baldri Þórhallssyni. Og þau eru það sem ég var að gagnrýna. Ef ég má ekki einhverra hluta vegna gagnrýna hv. þm. Baldur Þórhallsson eða einhverja aðra hv. þingmenn og fara orðrétt með það sem þeir segja er ég kominn í mjög sérkennilega stöðu. (Gripið fram í: Það var ekki gagnrýnt.) Það sem var verið að gagnrýna nákvæmlega, og við erum búin að taka fyrir hvað eftir annað, var aðferðafræðin í þessum spurningum. Ég get lesið aftur fyrir þingheim það sem hv. þingmaður vísar í, með leyfi forseta:

„Efnisatriði spurninganna voru þar ákveðin. Það hvernig spurt er um þessi efnisatriði var ákveðið af færustu aðferðafræðisérfræðingum landsins.“

Þetta er ekki rétt, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) efnisatriðin voru ákveðin (Forseti hringir.) af stjórnarmeirihlutanum. Það hefur komið fram í fjölmiðlum í dag.