140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

orð þingmanna í atkvæðagreiðslu.

[14:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða þennan lið, að bera af sér sakir, og ég held að við séum búin að opna hann verulega ef ég var að bera hv. þm. Baldur Þórhallsson sökum með því að segja að hann væri að kenna þjóðaratkvæðagreiðslur í Háskóla Íslands. (Gripið fram í.) Það vill svo til að við hv. þingmaður höfum báðir lært aðferðafræði og eftir mínum bestu heimildum, sem ég treysti mjög vel, hefur hv. þingmaður kennt það fag. Ég sagði í ræðustól þingsins og vona að ég hafi ekki þar með verið að bera hann sökum að ég gerði sérstaka kröfu til hv. þingmanns af því að hann þekkti þessi mál svo vel. Kannski var ég með því að bera hv. þingmann sökum, það má vel vera, en ég vil ekki aðeins að hv. þingmaður, sem aðrir, hafi skoðanir og málfrelsi, ég bað hv. þingmann að taka þátt í umræðunni. (Gripið fram í: … afsökunar.) Ef við megum ekki (Forseti hringir.) ræða um fólk með þessum hætti þurfum við að breyta (Forseti hringir.) mjög miklu og mjög hratt.