140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

lengd þingfundar.

[14:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Það er að sjálfsögðu engin ástæða til að vera með lengdan þingfund þegar stjórnarmeirihlutinn hefur ekki gert sér grein fyrir því hvernig á að ljúka þingstörfum yfirleitt. Stjórnarmeirihlutinn er einhvers staðar í herbergjum farinn að tala um að það þurfi að vera sumarþing til að klára einhver mál. (Gripið fram í.) Hvaða mál eru það? Það er ekki farið að ræða einu sinni hvernig menn ætla sér að reyna að lenda á þeim tíma sem er eftir af þinginu. Það er alveg klárt, frú forseti, að stjórnarandstaðan mun ekki láta valta yfir sig með einhverjum hótunum um sumarþing, alls ekki, við munum tala hér áfram til að við getum fengið botn í það [Háreysti í þingsal.] hvernig þessi mál eiga að vera þannig að það liggi bara fyrir. Það verður bara gert þannig. [Frammíköll í þingsal.]

Ég fullvissa hæstv. forseta um (Forseti hringir.) að það er nægur tími til að ræða málin í þinginu þannig að það sé bara sagt. Það er óþolandi að sitja undir þessum hótunum og ríkisstjórnin er gjörsamlega óþolandi. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu þurfum við að bregðast við því, hv. þingmenn. (Gripið fram í.) Verðum við ekki að knýja fólk til að koma og semja við okkur? Hún er með ólíkindum, þessi framkoma. Það er ekki hægt að segja neitt annað. Ef þið ætlið að vera hér í sumar, góðir stjórnarliðar, skuluð þið bara gjöra svo vel (Forseti hringir.) að gera það.