140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að þetta mál skuli komast á dagskrá og að við fáum þannig tækifæri til að eiga orðastað í þinginu um þessa fjárfestingaráætlun sem ríkisstjórnin kynnt í síðustu viku. Það eru efni til að fara yfir nokkra þætti þessa máls, í fyrsta lagi mætti ræða sérstaklega um það hvernig ríkisstjórnin hyggst fjármagna fjárfestingaráætlunina sem núna er kynnt. Síðan mætti ræða um það sérstaklega, og ég hyggst gera það á eftir, hvar eigi að drepa niður fæti og síðan mætti í þriðja lagi að sjálfsögðu ræða það hvað annað kæmi líka til álita að gera til að örva fjárfestingu á Íslandi.

Ríkisstjórnin hefur á þessu kjörtímabili að minnsta kosti í tvígang samkvæmt sérstöku samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins fjallað um það hvernig örva eigi fjárfestingu á Íslandi. Fyrst var það gert hér í stöðugleikasáttmálanum frá 2009, þá var það útlistað undir 4. lið að ríkisstjórnin ætlaði að greiða götu ákveðinna stórframkvæmda. „Framkvæmdir til að stuðla að aukinni atvinnu“ er fyrirsögnin á þeim kafla í stöðugleikasáttmálanum og hefðu framkvæmdir gengið eftir í þeim mæli sem gengið var út frá þegar stöðugleikasáttmálinn var gerður á árinu 2009 sæjum við allt annað framkvæmdastig í landinu en raun ber vitni. Og ein helsta ástæða þess að samkomulagið um stöðugleikasáttmálann við aðila vinnumarkaðarins sprakk var einmitt sú að ríkisstjórnin stóð ekki við sinn hluta þess samkomulags. Einn þáttur þess máls var óvissan sem ríkisstjórnin hefur haldið sjávarútveginum í landinu í. Og hvað hefur gerst í sjávarútvegi á Íslandi undanfarin ár? Það sem hefur gerst í þeirri atvinnugrein er að fjárfesting í greininni hefur hrunið frá því sem hún áður var, um það bil 20 milljarðar á ári, niður í um 4–5 milljarða. Það er það sem hefur gerst í sjávarútveginum og er bein afleiðing af stefnu ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili með því að halda þeirri grein í þeirri óvissu sem hún hefur þurft að búa við allt þetta kjörtímabil. Og enn sér ekki fyrir endann á henni.

Það var ekki bara árið 2009 sem ríkisstjórnin sagði að hún hygðist beita sér fyrir aukinni fjárfestingu á þessu kjörtímabili eða þessum árum, heldur kom aftur fram yfirlýsing frá ríkisstjórninni á vormánuðum síðasta árs í tengslum við kjarasamninga sem þá voru gerðir í maí árið 2011. Og þá var aftur sérstakur kafli. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem er hér að finna á fjölmörgum blaðsíðum, langt mál um það hvernig ríkisstjórnin hyggist örva fjárfestingu í landinu, sókn í atvinnumálum, fjárfestingar, og hér segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Það er sameiginlegt markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að vinna bug á atvinnuleysi og skapa fjölbreytt og vel launuð störf hér á landi.“

Við blasir að fjárfesting hefur verið of lítil. Svo virðist að með þessari nýju fjárfestingaráætlun sem unnin er í engu samráði við aðila vinnumarkaðarins hafi menn lagt til hliðar fyrri áform þar sem mikið var talað til dæmis um að nýta orkuna í landinu. Það sem hefur breyst í millitíðinni er að við höfum fengið til dæmis rammaáætlunina þar sem hagkvæmustu orkunýtingarkostirnir hafa verið teknir út fyrir sviga í þingsályktunartillögu sem kynnt var hér í þinginu. Kjarni málsins er þessi: Ætli menn sér í alvöru að stórauka fjárfestingu á Íslandi þarf ekki bara að skapa hér hagkvæmt umhverfi og eyða óvissu eins og ríkt hefur um stærstu atvinnuvegi okkar eins og sjávarútveginn, heldur þarf líka að vera til staðar vilji til að grípa tækifærin til orkunýtingar. Hér kom einn frasinn frá hæstv. forsætisráðherra, sem talaði um stóriðjustefnuna endalausu í sínu máli. Þetta snýst ekki bara um að reisa fleiri álver. Þetta byrjar á viljanum til að nýta orkuna, þar byrjum við. Svo sjáum við til hvaða fyrirtæki koma og lýsa áhuga á því að kaupa þá orku og nýta hana til að auka útflutningsverðmæti okkar Íslendinga og auka verðmætasköpun almennt í landinu. Ríkisstjórnin hefur engan lit sýnt í þeirri mikilvægu vegferð. En gott og vel. Ég gæti tínt hér til fjölmargt fleira eins og til dæmis skattstefnu þessarar ríkisstjórnar sem hefur beinlínis valdið því að dregið hefur úr fjárfestingu í landinu, ég get líka nefnt óvissuna sem hefur verið viðvarandi vegna gjaldeyrishaftanna. Ég kem kannski inn á það síðar hvaða leiðir við sjálfstæðismenn sjáum út úr þessari stöðu.

Stöldrum aðeins við það hvernig á að fjármagna þessa fjárfestingaráætlun, sem ég vil leyfa mér að segja að er minnsta kosti þriðja fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar til viðbótar við þær tvær sem hafa verið gerðar eftir samráð við aðila vinnumarkaðarins. Hvernig á að fjármagna þetta að uppistöðu til? Það á að gera það annars vegar með veiðigjaldinu, um það liggur fyrir frumvarp í þinginu. Þeir sérfræðingar sem ríkisstjórnin sjálf kallaði sér til ráðgjafar í því máli hafa sagt að þetta sé allt of langt gengið. Mörg fyrirtæki munu hreinlega lenda í greiðsluþroti verði þessar hugmyndir að veruleika. Er það góður grunnur að fjárfestingaráætlun að byggja hana að uppistöðu til á slíkri fjármögnun? Nei, það sýnist mér ekki. Og málið er reyndar óafgreitt í þinginu.

Hins vegar segja menn að það eigi að nota eignarhluti sem seldir verða úr bönkunum til að ráðast í þetta. Ég vil þá byrja á því að segja að ég fagna því að það sé samhljómur á milli þessara tveggja stjórnarflokka um að einkavæða bankana að nýju að fullu. Það er nýtt. Það var ekki alltaf þannig hjá Vinstri grænum að þeir væru sáttir við að allir eignarhlutir í bönkunum færu í hendur einkaaðila. Það er ágætt, en eigum við ekki að muna það í leiðinni að við eignuðumst þessa hluti með því að skuldsetja ríkissjóð. Væri ekki ágætt að nota arðinn af þeirri fjárfestingu, þegar við náum að losa aftur um þann eignarhlut, til að greiða niður skuldina sem stofnað var til þegar ríkið eignaðist þann sama eignarhlut? Er það ekki ágætisleið?

Þar fyrir utan má spyrja sig, ef menn ætla að fara út í þá aðferðafræði að segja að það séu tekjurnar af nýtingu sjávarauðlindarinnar sem eigi að standa að baki þessu og þessu verkefni: Hvar á sú aðferðafræði að enda? Hvað ætlum við þá nákvæmlega að gera fyrir til dæmis tekjuskattinn í landinu, virðisaukaskattinn, fjármagnstekjuskattinn eða erfðafjárskattinn? Hvað á að gera fyrir hvaða skattstofn? Staðreynd málsins er sú að það er dálítið verið að stilla þjóðinni og kjósendum upp við vegg og um leið þinginu. Það er verið að stilla mönnum upp við vegg og segja: Annaðhvort samþykkið þið að stórauka veiðigjaldið með öllum þeim áhrifum sem af því leiðir eða það verða engar fjárfestingar. Þannig blasir þetta skjal við mér en það er til önnur leið, það er til allt önnur leið og hún er sú að draga úr skattlagningu og sýna vilja til að nýta orkuauðlindirnar í landinu og gera það þannig að fylgt verði ráðum okkar hæfasta fólks sem í tíu ár hefur unnið að því að kortleggja þá valkosti sem okkur standa til boða. Ríkisstjórnin hefur engan vilja sýnt til þess, hún hefur til dæmis ákveðið að fara frekar í Búðarháls sem skilar sama afli og Norðlingaölduveita hefði gert en kostar 10 milljörðum meira. Það var 10 milljarða virði að fara frekar þá leið en í Norðlingaölduveitu. Reyndar tel ég ekki að Búðarhálsinn hefði þurft að vera útilokaður ef menn hefðu farið í Norðlingaölduveitu en þetta sýnir hvernig forgangsröðunin hefur verið í þeim efnum.

Annað sem þarf að sjálfsögðu að gera er að samhliða þessu þarf að bæta sérstaklega stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja, þ.e. samhliða almennum lækkunum á sköttum þarf að bæta stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Það verður líka að binda endi á aðgerðir fyrir skuldsett heimili. Það er enn þá allt of margt upp í loft hvað skuldsett heimili varðar, allt of margir sem hafa ekki fengið bót sinna mála af þeim sem hafa haft við skuldavanda að glíma undanfarin ár og þá munu menn sjá að losna munu úr læðingi úti í þjóðfélaginu nýir kraftar hjá einkaframtakinu. Ríkið þarf ekki að vera upphaf og endir alls. Við þurfum ekki að skattleggja til að geta byrjað að framkvæma, það þarf ekki að leggja á nýja gjaldstofna til að koma fjárfestingu af stað, það þarf að skapa umhverfi til að einkaaðilarnir sjái sér hag í því að gera það. Ríkið þarf ekki að vera í miðju fjárfestingaráætlunar sjálft, það þarf ekki að stýra fjárfestingaráætlun úr Stjórnarráðinu í gegnum ríkiskassann. Það er hægt að leyfa atvinnulífinu að skipuleggja sig sjálft um leið og menn hafa komið á fót hagkvæmu rekstrarumhverfi og eytt óvissu og skapað grundvöll fyrir menn til að binda fjármuni í íslenskum tækifærum til lengri tíma.

Um hin einstöku verkefni er ekki tími til að fara í löngu máli en ég tek fram að margt góðra verkefna er að finna í þessari áætlun. Sum þeirra sem horfa sérstaklega til nýsköpunar eru hins vegar þess eðlis að þess er ekki að vænta að þau skapi mörg störf á allra næstu missirum eða næstu árum vegna þess hversu langan tíma það tekur fyrir slík verkefni að skila sér í beinhörðum störfum. Önnur verkefni eru jafnframt þess eðlis að við höfum beinlínis mælt fyrir þeim í okkar eigin tillögu til þingsályktunar um endurreisn íslensks atvinnulífs, eins og hvað snertir innviði samfélagsins, vegaframkvæmdir og aðrar samgöngubætur. Önnur verkefni eru enn eldri af nálinni, hérna eru til dæmis tínd upp í þriðja eða fjórða sinn á þessu kjörtímabili verkefni eins og þau sem tengjast háskólasjúkrahúsi. Það er margt af ágætum verkefnum hér en ég gagnrýni að ekki sé tekið á almennu rekstrarumhverfi fyrirtækjanna í landinu og að fjármögnunin sé reist á jafnveikum stoðum og ég hef hér farið yfir.