140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:31]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari umræðu og þakka fyrir að gefið er rými fyrir hana í störfum þingsins. Ég vil byrja á því að fara nokkrum orðum um tímasetninguna, hvers vegna menn eru að kynna fjárfestingaráætlun við þessar aðstæður í okkar samfélagi. Ég held að það séu nokkrar afar mikilvægar ástæður sem við þurfum að hafa í huga.

Í fyrsta lagi er það staðan í ríkisfjármálunum. Þar hefur náðst ótrúlegur viðsnúningur á örfáum missirum. Við hófum störf á þessu kjörtímabili með fjárlagahalla upp á 215 milljarða. Það hefur tekist að ná honum niður í það að vera innan við fimmtungur af þeirri fjárhæð á síðasta ári og stefnir í 20 milljarða á þessu ári. Það eru því að skapast forsendur núna, það er borð fyrir báru til að nýta fjármuni í annað en að borga niður skuldir af gegndarlausum halla ríkissjóðs.

Í öðru lagi erum við að stíga skref í auðlindamálum sem tryggja það eftir áratugalanga baráttu að þjóðin sér loksins fram á að fá sanngjarna auðlindarentu fyrir afnotaréttinn til veiða úr hinni sameiginlegu auðlind. Eins og hér hefur verið rakið í umræðunni eiga þær tekjur ekki að renna í óskilgreind verkefni eða rekstur ríkissjóðs. Hér eru kvikir tekjustofnar á ferðinni sem eðlilegt er að renni í að byggja upp grunnstoðir atvinnulífsins, í að efla vaxtargreinar, treysta innviði samgöngukerfisins o.s.frv.

Í þriðja lagi er mikilvægt að ýta undir þann efnahagsbata sem þrátt fyrir allt er staðreynd. Hér er hagvöxtur með því mesta sem við sjáum í vesturhluta álfunnar. Atvinnuleysið er komið úr 9,3% niður í 6,5% í síðasta mánuði og ef þessi áætlun gengur eftir lækkar atvinnuleysið niður undir 5% á næsta ári og 4% 2015.

Í fjórða lagi er hér um að ræða að ríkisstjórnin er að sýna í verki áherslu sína á nýja og mun fjölbreyttari atvinnustefnu en keyrð hefur verið í landinu undanfarna áratugi. Hér er græna hagkerfið, hér er ferðaþjónustan, hér eru samgöngubætur, skapandi greinar, þar með talið kvikmyndagerð, uppbygging nýrra valkosta í húsnæðismálum og svo mætti áfram telja. Ég fagna sérstaklega því að hér sýnir ríkisstjórnin vilja í verki til að hrinda úr vör 1. áfanga þeirra tillagna sem allir flokkar á þinginu lögðu gott til að yrði samþykkt í samhengi við áætlunina um græna hagkerfið og það er mikilvægt því að þar er ekki einungis um að ræða hagsmuni einnar atvinnugreinar. Þetta er hugsun um breytt vinnubrögð, um lausnir sem eru umhverfisvænar, sem eiga erindi við ferðaþjónustuna, við skapandi greinar, við orkugeirann, við landbúnaðinn, við sjávarútveginn, við allar þær atvinnugreinar sem eru að ýta undir hagvöxt í landinu um þessar mundir.

Gert er ráð fyrir að þetta sé veruleg innspýting fyrir atvinnulífið, auki hagvöxt um hálft prósentustig, minnki atvinnuleysi verulega og þetta er gert án þess að við séum að tefla í tvísýnu ríkisfjármálaáætluninni. Fjármögnunin er hófleg, það á að fjármagna þessa áætlun úr tveimur áttum, með sérstöku veiðigjaldi og leigu aflahlutdeilda og með arðgreiðslum og sölu eignarhluta í bönkunum. Við erum langt í frá að selja fugl í skógi með þessari fjármögnunarleið. Ætlunin er að nýta einungis um 30% af þeim fjármunum sem við áætlum að komi inn í gegnum þessa fjármögnunarliði þannig að það er heilmikið svigrúm eftir til að styðja við ríkisfjármálaáætlunina og til að ná fjárlagahallanum enn frekar niður.

Grundvöllurinn er sem sagt traust stefna og mikill árangur í ríkisfjármálum, aukinn hagvöxtur, en við viljum hins vegar ná meiri árangri í atvinnumálum, ná atvinnuleysinu enn frekar niður. Árangur sem við sjáum í atvinnumálum í hagvexti sem er með því mesta sem gerist í álfunni og síðan sá viðsnúningur í efnahagsmálum sem hefur verið hægur en öruggur á undanförnum árum eftir dýpstu kreppu lýðveldistímans í kjölfar hruns fjármálakerfisins.

Það eru mikil tíðindi að ríkisstjórnin sé núna að sýna í verki hvernig hægt er að byggja upp fjölbreytta atvinnustarfsemi með stuðningi við miklu fleiri greinar en tíðkast hefur í atvinnumálum fram að þessu. Ég held að hér sé góður grundvöllur til að ná pólitískri samstöðu. Hér eru margar tillögur sem eiga samhljóm í áætlunum sem hafa komið frá stjórnarandstöðunni á undanförnum missirum og ég held að við eigum að sameinast um að styðja þá uppbyggingu í atvinnulífinu sem þessi áætlun boðar.