140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum kosningaloforð Samfylkingarinnar fyrir næstu þingkosningar. Það er í rauninni ekki hægt að kalla þetta annað enda er hér verið að lofa ýmsum útgjaldaliðum eftir kosningar, sem sagt á næsta kjörtímabili, og um leið er þetta yfirlýsing um hvers konar ríkisstjórn núverandi stjórnarflokkar sjá fyrir sér að mynda að kosningum loknum.

Við þessi vinnubrögð er eitt og annað að athuga, sérstaklega er varðar fjármögnun verkefnanna því að þarna eru mjög mörg góð verkefni, verkefni sem ég held að sé almenn samstaða um að fjármagna og samstaða um að séu að minnsta kosti flest hver mikilvæg. En þarna er verið að lofa því að fjármagna þetta með peningum sem ekki er búið að afla og er mjög óljóst um hvort hægt verði að afla og skuldbinda að einhverju leyti eða að minnsta kosti gefa loforð fyrir næsta Alþingi. Ríkisstjórnin er því ekki aðeins að grípa fram fyrir hendur þingsins sem hefur fjárveitingavaldið, hún er að grípa fram fyrir hendur næsta þings. Vald hennar til þess er reyndar ekki til staðar og því er þetta ekki annað en yfirlýsing um hvað Samfylkingin vill framkvæma eftir næstu kosningar, sú nýjasta í langri röð fjárfestingaráætlana sem iðulega eiga að skapa mörg þúsund störf, störf sem hafa ekki orðið til. Samtals er líklega búið að lofa hátt á fimmta tug þúsunda starfa með ýmiss konar verkefnum, jafnvel í tengslum við gerð kjarasamninga, sem hafa svo einfaldlega verið svikin.

Það sem er sérstaklega óæskilegt við hvernig þetta mál er lagt upp er það sem ég nefndi í byrjun, að þarna er verið að útdeila peningum sem eru ekki til staðar. Ætlunin er að taka tugi milljarða út úr sjávarútveginum og er það byggt á tillögu ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða og gjaldtöku af sjávarútvegi, tillögu sem ég taldi reyndar að stjórnarmeirihlutinn væri búinn að fallast á að væri óraunhæf eftir fjölmörg álit og alla þá útreikninga sem sýndu fram á að greinin réði ekki við gjaldtökuna. Meiri hluti fyrirtækja í greininni færi líklega í þrot og þúsundir starfa mundu tapast en ríkisstjórnin ætlar að halda sig við það að fórna þúsundum starfa í sjávarútveginum og tengdum greinum og færa peningana annað.

Jafnframt á að fjármagna þetta með sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum. Við höfum reyndar áður heyrt ríkisstjórnina tala um að hún ætlaði að nota peningana sem hún fengi fyrir eignarhlut í bönkunum í það að brúa bilið í rekstri ríkissjóðs, en nú á að nota þetta fjármagn í þau verkefni sem upp eru talin í áætluninni en gleymist þá væntanlega að hlutur ríkisins í bönkunum var keyptur fyrir lánsfé. Það þarf væntanlega að endurgreiða þau lán og það er ekki bæði hægt að nota fjármagnið í að endurgreiða lánin og í þau verkefni sem þarna er lýst. Áætlunin byggir því á mjög veikum grunni, raunar enn veikari en fyrri áform ríkisstjórnarinnar, m.a. þau er tengdust kjarasamningunum, en ekki einu sinni þau hefur ríkisstjórnin staðið við, hvað þá áætlun sem ekki er búið að fjármagna sem á að eiga sér stað á næsta kjörtímabili. Atvinnuleysi er reyndar ekki nema 6–7%, ég segi „ekki nema“ vegna þess að víða í Evrópu er atvinnuleysið töluvert meira. En þá gleyma menn því að það er búið að afskrá fjölda fólks af atvinnuleysisskrá og þúsundir hafa flust til annarra landa, ekki hvað síst Noregs, í leit að vinnu.

Hæstv. ráðherrar nefna líka hagvöxtinn en hvernig er hagvöxturinn til kominn? Ekki með fjárfestingu, ekki með nýrri verðmætasköpun. Nei, það er tvennt sem hefur skipt sköpun við að halda íslenska hagkerfinu á floti. Það eru annars vegar neyðarlögin, sem urðu til þess að við tókum ekki óhóflega ábyrgð á hinum föllnu bönkum, og hins vegar gjaldmiðillinn. Fall krónunnar hefur aukið til mikilla muna útflutning og þetta heldur uppi hagvexti. En ríkisstjórnin vinnur að því og hefur sett það í forgang að snúa þessum tveimur hlutum við, taka upp evru með öllum þeim skakkaföllum, samdrætti og atvinnuleysi sem henni fylgir um alla Evrópu og að taka ábyrgð á skuldum fallinna einkabanka. Það er með öðrum orðum verið að vinna að því að snúa við þessum tveimur þáttum sem hafa gagnast okkur hvað best á undanförnum árum og um leið að vega að grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og lofa fjármagninu, fjármagni sem ekki er til, í framtíðarverkefni í kosningaloforð Samfylkingarinnar fyrir næstu þingkosningar.

Það er mikil synd að ríkisstjórnin skuli starfa með þessum hætti þegar við horfum upp á það að tækifæri Íslands eru gríðarleg og líklega miklu meiri en flestra annarra landa. Ef hér væri rekin skynsamleg stefna í skattamálum, ef hér væri framleidd sú orka sem þarf, væru farin af stað fjölmörg fjárfestingarverkefni, tugir fjárfestingarverkefna, alvöruverkefna, atvinnuskapandi verkefna og þúsundir starfa hefðu skapast. Þetta vitum við vegna þess að áhuginn hefur verið til staðar. Á Íslandi eru aðstæður allar eða flestar hinar bestu fyrir nýja fjárfestingu nema ríkisstjórnin sem stöðugt innleiðir nýjar reglur sem halda aftur af fjárfestingu og koma í veg fyrir verðmætasköpun en eyðir þess í stað peningum sem ekki eru til.