140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:42]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Það er ágætt að fá tækifæri til að ræða þessa skýrslu hér eða framkvæmdaáætlun. Ég saknaði þess að fá ekki kynningu sem hafði verið boðuð á þessu verkefni, en það var þannig síðasta föstudag að mér var boðið á kynningu en hún féll niður vegna þess að enginn áhugi var á henni hjá hinum stjórnarandstöðuflokkunum og hún fór því ekki fram. (JónG: „Hinum stjórnarandstöðuflokkunum?“) Eru margir stjórnarandstöðuflokkar hér? (Gripið fram í: Þeir eru tveir.) En það var beðið um umræðu og það er ágætt að hún fari fram.

Það er margt gott við þetta og það jákvæða er kannski útgjaldahliðin og gott að horfa á hana og ímynda sér að hér geti allt orðið betra. Það væri vissulega gott að fá innspýtingu í hagkerfið. Þetta eru mörg feikifín verkefni og þörf og mér líst vel á áherslurnar sem eru á græna hagkerfið og sjálfbærni. Hvernig er hægt að vera á móti því? Þetta hljómar allt ljómandi vel. Og veiðigjaldið, við eigum auðvitað að innheimta það, ekki spurning, og verja því til góðra verka.

Ég hef hins vegar miklar efasemdir um arðgreiðslur úr bönkunum og sölu á eignarhlutum ríkisins í þeim. Bankarnir hafa skilað ævintýralegum hagnaði frá hruni. Ef við ættum að hafa lært eitthvað af hruninu er það það að ef eitthvað virðist of gott til að vera satt, þá er það venjulega ekki satt. Þannig er það líka í þessu tilfelli. Hagnaður bankanna er til kominn vegna þess að skuldir heimila og fyrirtækja stökkbreyttust við hrunið. Þær voru færðar úr þrotabúum gömlu bankanna yfir í þá nýju með miklum afslætti og þeim afslætti hefur ekki verið skilað til skuldsettra heimila og fyrirtækja í þeim mæli sem hefði þurft og hefur verið eignfært og við horfum nú á í ársreikningum bankanna sem hagnað. Mér finnst rangt að greiða út arð úr bönkunum þegar svona er komið því að um leið og arður verður greiddur úr bönkunum höfum við viðurkennt að það sem gerðist sé í lagi. Þá höfum við réttlætt ofurhagnaðinn sem mér finnst hreinlega til kominn með ósiðlegum hætti. Það get ég aldrei samþykkt.